Enski boltinn

Aston Villa hefur lagt fram tilboð í Parker

Stefán Árni Pálsson skrifar
Parker með West Ham í vetur.
Parker með West Ham í vetur. Mynd. / AFP
Samkvæmt heimildum fréttastofu Sky Sports mun enska úrvalsdeildarliðið, Aston Villa, hafa lagt fram 7 milljóna punda tilboð í enska miðjumanninn Scott Parker, en hann leikur með West-Ham United.

West-Ham féll niður í ensku Championship-deildina í lok síðustu leiktíðar og virðast vera í vandræðum með að halda í aðal stjörnu liðsins, en Parker var frábær fyrir Lundúnarliðið á síðustu leiktíð.

Scott Parker hefur verið orðaður við nokkur lið í ensku úrvalsdeildinni og nú síðast bárust fregnir af því að West-Ham væri aðeins reiðubúið að lána leikmanninn í annan klúbb en Parker er samningsbundinn West-Ham til ársins 2014.

Forráðamenn Aston Villa ætla sér að ganga frá kaupunum í byrjun næstu viku en félagið seldi leikmanninn Steward Downing til Liverpool fyrir 19 milljónir punda í gær og hafa því fjármagn milli handanna.

Nýráðinn knattspyrnustjóri Aston Villa, Alex McLeish, ætlar sér greinilega að styrkja liðið fyrir komandi átök en félagið hefur einnig svo gott sem tryggt sér þjónustu markvarðarins, Shay Given, frá Man. City. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×