Erlent

Lofar öllum landsmönnum Argentínu flatskjáum

Cristine Fernandez, forseti Argentínu.
Cristine Fernandez, forseti Argentínu.
Forseti Argentínu, Cristina Fernandez, tilkynnti á dögunum heldur sérkennileg kosningaloforð. Eitt loforðið, eða átakið öllu heldur, kallast: „Sjónvarp fyrir alla!"

Og ekki bara sjónvarp, heldur flatskjáir fyrir alla. Cristine tilkynnti á dögunum að ríkisstjórnin ætlaði að tryggja landsmönnum verulega hagstæð lán til þess að kaupa sér flatskjái.

Þá tilkynnti forsetinn einnig að ríkisstjórnin byði upp á samskonar úrræði varðandi mat. Þannig er kjöt fyrir alla, sem og fiskur.

Verðbólgan í Argentínu er gríðarlega há og laun landsmanna að sama skapi lág. Þá er matvöruverð sem og verð á hinum ýmsu lúxusvörum, einstaklega hátt. Cristine segist vilja auka neyslu landsmanna í von um að lækka verðbólguna.

Gagnrýnendur segja framtakið lykta af pólitískri tækifærismennsku auk þess sem hagfræðingar eru nokkurn veginn sammála um að þetta muni hafa afar lítil áhrif á verðbólguna, ef nokkra.

Einn Argentínubúi var þó þakklátur. Hann sagði í viðtali við Reuters, sem greindi frá málinu, að kjötið væri að vísu bragðvont, en hann væri þakklátur fyrir framtakið þar sem hann gæti alls ekki keypt sér kjöt ef það væri ekki fyrir framtak ríkisstjórnarinnar.

Spurður hvern hann hygðist kjósa í forsetakosningunum, sem fram fara í lok október, svaraði viðmælandinn: „Cristine."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×