Enski boltinn

Áhugaverð reglubreyting í enska boltanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ian Holloway var allt annað en sáttur við sektina sem Blackpool hlaut á síðustu leiktíð.
Ian Holloway var allt annað en sáttur við sektina sem Blackpool hlaut á síðustu leiktíð. Nordic Photos/AFP
Enska úrvalsdeildin hefur breytt reglum sínum er varðar rétt félaga til þess að stilla upp liðum sínum eftir hentugleika. Á síðustu tímabilum hafa Blackpool og Wolves hlotið sektir fyrir að stilla upp „veiku byrjunarliði" í leikjum sínum.

Hér eftir mega félögin notast við alla 25 knattspyrnumennina í leikmannahópi liðsins án þess að eiga á hættu að fá sekt fyrir. Öll félögin tuttugu í deildinni eru samþykk breytingunni.

Blackpool var sektað um 25 þúsund pund eða sem svarar tæpum 5 milljónum króna fyrir að gera tíu breytingar á byrjunarliði sínu milli leikja á síðasta tímabili.

Þjálfari Blackpool, Ian Holloway, hótaði að segja starfi sínu lausu yrði félagið sektað, svo ósáttur var hann við athugasemdir forsvarsmanna ensku úrvalsdeildarinnar. Hann stóð reyndar ekki við stóru orðin.

Wolves undir stjórn Mick McCarthy gerði sömuleiðis tíu breytingar á byrjunarliði sínu gegn Manchester United tímabilið 2009-2010. Félagið var sömuleiðis sektað.

Félögin geta þó ekki stillt upp hvaða liði sem er. Notist liðið við óvenjumarga leikmenn utan 25 manna hópsins eiga þau enn á hættu að vera refsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×