Enski boltinn

Wenger segir síðasta tímabil það erfiðasta á ferlinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger hefur stýrt Arsenal til þriggja Englandsmeistatitla.
Wenger hefur stýrt Arsenal til þriggja Englandsmeistatitla. Nordic Photos/AFP
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal svaraði spurningum blaðamanna í Malasíu í gær en Arsenal er á æfingaferðalagi í Asíu. Wenger segir lið sitt nógu gott til þess að ná góðum árangri á næsta tímabili. Þá hafi síðasta tímabil hans með Arsenal verið hans erfiðasta á ferlinum.

Aðspurður um gengi liðsins á síðasta tímabili sagði Wenger:

„Afrek okkar á síðasta tímabili þrátt fyrir meiðsli og ungan leikmannahóp er leikmannahópnum til hróss. Við erum í góðri stöðu að sína hvað býr í liðinu. Ef þú ert sigurvegari segir þú: Við vorum mjög, mjög nálægt því á síðasta tímabili. Klárum þetta á þessu tímabili," sagði Wenger.

Wenger segir síðasta tímabil hafa verið afar erfitt.

„Síðari hluti síðasta tímabil var það erfiðasta á ferli mínum. Það var svo erfitt andlega vegna þess að við vorum langt niðri. Það sást langar leiðir að síðustu þrjár til fjórar vikurnar voru mjög erfiðar," sagði Wenger.

„Ég tel okkur nógu góða (til að ná árangri)," sagði Wenger þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann ætli að kaupa fleiri leikmenn. Fílbeinstrendingurinn Gervinho gekk nýlega til liðs við Arsenal og Wenger segir hann minna um margt á Thierry Henry.

„Hann hefur áhugaverða hæfileika. Hreyfir sig vel án bolta, er öskufljótur og getur spilað frammi en einnig hægra og vinstra megin. Hann skorar mörk, leggur upp svo hann er frábær viðbót fyrir sóknarleik liðsins. Stuðningsmenn Arsenal eiga eftir að njóta þess að fylgjast með honum," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×