Enski boltinn

Aston Villa gerir tilboð í N'Zogbia

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
N'Zogbia fagnar marki í leik með Wigan.
N'Zogbia fagnar marki í leik með Wigan. Nordic Photos/AFP
Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa hefur gert tilboð í kantmann Wigan, Charles N'Zogbia. BBC greinir frá þessu. N'Zogbia myndi fylla í skarðið sem kantmaðurinn Stewart Downing skilur eftir en hann er á leið til Liverpool.

Alex McLeish, nýr knattspyrnustjóri Aston Villa, er mikill aðdáandi leikmannsins. Hann var nálægt því að kaupa leikmanninn síðastliðið haust þegar hann réð ríkjum hjá nágrannaliðinu Birmingham.

N'Zogbia er 25 ára franskur landsliðsmaður og hefur spilað tæplega 250 leiki í enska boltanum. Fyrst hjá Newcastle og síðar hjá Wigan.

David Whelan eigandi Wigan hefur sagst vilja halda N'Zogbia en það sé hreinlega ekki mögulegt.

„Við viljum fyrir alla muni halda honum og greiða honum það sem hann vill til þess en staðan er erfið. Hann er frábær leikmaður en við erum lítið félag og stundum á þetta tvennt ekki samleið,“ sagði Whelan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×