Enski boltinn

Eiður Smári í læknisskoðun hjá West Ham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiður Smári hefur dvalið löngum stundum á varamannabekknum undanfarin misseri.
Eiður Smári hefur dvalið löngum stundum á varamannabekknum undanfarin misseri. Nordic Photos/Getty Images
Enski fjölmiðillinn Talksport greindi frá því á heimasíðu sinni í morgun að Eiður Smári Guðjohnsen færi síðdegis í læknisskoðun hjá West Ham. Skoðunin fari fram á sjúkrahúsi í Essex og gangi allt eftir verði hann orðinn leikmaður West Ham.

Eiður Smári hefur undanfarnar vikur verið orðaður við West Ham auk nýliða Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Samkvæmt heimildum fréttastofu óx Eiði Smára fjarlægð Swansea frá London nokkuð í augum. Brendan Rogers knattspyrnustjóri Swansea hefur gefið upp á bátinn að fá Eið Smára til velska liðsins.

Skiptar skoðanir eru meðal stuðningsmanna West Ham um mögulega komu Íslendingsins. Sumir segja Eið Smára útbrunninn knattspyrnumann meðan aðrir telja að hann komi með mikil gæði í leikmannahóp Lundúnarliðsins.

Hjá West Ham hittir Eiður Smári fyrir knattspyrnustjórann Sam Allardyce. Allardyce var þjálfari hjá Bolton á sínum tíma þegar Eiður Smári var á mála hjá félaginu.

West Ham er um þessar mundir í æfingaferð í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×