Enski boltinn

Meiðslapési verður samherji Heiðars Helgusonar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kieron Dyer spilaði aðeins 34 leiki á fjórum tímabilum hjá West Ham.
Kieron Dyer spilaði aðeins 34 leiki á fjórum tímabilum hjá West Ham. Nordic Photos/AFP
Kantmaðurinn Kieron Dyer hefur skrifað undir eins árs samning við nýliða QPR í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Dyer þótti á sínum tíma einn efnilegasti knattspyrnumaður Englands. Erfið meiðsli hafa gert það að verkum að ferill hans hefur ekki náð þeim hæðum sem reiknað var með.

„Ég þarf að sanna mig eftir tvö síðustu tímabil en mér líður vel og hlakka til að spila hlutverk í liðinu á næsta tímabili,“ sagði Dyer við heimasíðu QPR.

Dyer hóf feril sinn hjá Ipswich Town og varð dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins þegar Newcastle keypti hann á sex milljónir punda árið 1999. Meiðsli settu strik í reikninginn árin hjá Newcastle. Hans tíma verður af mörgum minnst fyrir rauða spjaldið sem hann hlaut ásamt liðsfélaga sínum Lee Bowyer í leik gegn Aston Villa árið 2005. Samherjunum lenti saman og var báðum vikið af velli.

Dyer hefur undanfarin ár verið á mála hjá West Ham en samningurinn við hann var ekki endurnýjaður að loknu síðasta tímabili.

„Þetta er áhætta fyrir okkur en ég tel þess virði að taka hana. Hann hefur staðið sig frábærlega á æfingum og lítur út fyrir að hann hafi unnið hart að því í sumar að koma sér í form,“ sagði Neil Warnock knattspyrnustjóri QPR.

Dyer hefur spilað 33 landsleiki fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×