Enski boltinn

Macheda með tvö í sigri Man Utd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Macheda skorar síðara mark sitt í leiknum.
Macheda skorar síðara mark sitt í leiknum. Nordic Photos/AFP
Ítalinn Federico Macheda minnti á sig í 4-1 sigri Manchester United á New England Revolution í Massachusetts-ríki í gærkvöld. Ji-Sung Park og Michael Owen skoruðu einnig í leiknum.

Leikurinn er sá fyrsti sem Englandsmeistararnir spila vestanhafs á æfingaferð sinni um Bandaríkin. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttirnar. Michael Owen kom United yfir eftir fallegt spil og Macheda jók muninn nokkrum mínútum síðar.

Macheda vill eflaust minna stuðningsmenn Manchester United og knattspyrnustjórann Alex Ferguson á nærveru sína. Macheda varði síðasta tímabili á láni hjá Sampdoria á Ítalíu.

Heimamenn minnkuðu muninn skökku síðar með marki Kenny Mansally úr aukaspyrnu. Macheda skoraði annað mark sitt áður en Ji-Sung Park skoraði snyrtilegt mark eftir laglegt samspil við Ryan Giggs.

Næsti leikur Englandsmeistaranna er gegn Seattle Sounders miðvikudaginn 20. júlí. Auk þess leikur liðið gegn Chicago Fire, New York Cosmos, stjörnuliði MLS-deildarinnar og Barcelona á æfingaferðalagi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×