Enski boltinn

Arsenal og Liverpool með sigra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Liverpool í Guandong
Stuðningsmenn Liverpool í Guandong Nordic Photos/AFP
Arsenal og Liverpool léku sína fyrstu leiki á æfingaferð félaganna um Asíu. Arsenal vann stórsigur á úrvalsliði Malasíu 4-0 og Liverpool vann 4-3 sigur á Guandong í Kína.

Aaron Ramsey kom Arsenal yfir úr vítaspyrnu eftir fimm mínútur og Walcott bætti öðru marki við skömmu fyrir hlé. Í síðari hálfleik skoraði Carlos Vela snyrtilegt mark áður en Tékkinn Tomas Rosicky skoraði af stuttu færi skömmu fyrir leikslok.

Í Guandong var það Daninn Christian Poulsen sem kom Liverpool á bragðið á 19. mínútu og mínútu síðar skoraði Frakkinn David Ngog annað mark Liverpool. Heimamenn minnkuðu muninn rétt fyrir hálfleik og staðan 2-1 í leikhléi.

Liverpool skipti um lið í hálfleik og meðal annars kom Charlie Adam inná. Hinn 18 ára Conor Coady skoraði þriðja markið eftir sendingu frá dýrasta knattspyrnumanni Bretlandseyja, Andy Carroll. Það var svo frumskógarmaðurinn sjálfur, Andy Carroll, sem skoraði fjórða markið en kappinn skartar miklu skeggi um þessar mundir.

Heimamenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark en úrslitin 4-3 sigur hjá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×