Enski boltinn

Roger Johnson til Úlfanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Johnson fagnar sigrinum á Arsenal í úrslitum deildabikarsins.
Johnson fagnar sigrinum á Arsenal í úrslitum deildabikarsins. Nordic Photos/AFP
Enska úrvalsdeildarfélagið Wolverhampton Wanderers hefur gengið frá kaupum á enska miðverðinum Roger Johnson frá Birmingham. Johnson skrifaði undir fjögurra ára samning við Úlfanna en kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.

Johnson sem er 28 ára gamall hefur verið undir smásjánni hjá Wolves lengi. Að sögn Jez Moxey yfirmanns hjá Wolves reyndi Wolves að kaupa Johnson fyrir tveimur árum frá Cardiff en Birmingham hafði betur.

Sögusagnir voru uppi þess efnis að Wolves greiddi Birmingham sjö milljónir punda fyrir leikmanninn en Moxey þvertekur fyrir það.

„Fjölmiðlar hafa ekki farið með rétt mál varðandi kaupverðið á Johnson. Við gerðum eitt formlegt tilboð og upphæðin var stórlega ýkt,“ sagði Moxey.

Johnson er þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við Wolves á skömmum tíma. Jamie O'Hara gekk nýlega til liðs við félagið auk hollenska markvarðarins Dorus De Vries.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×