Enski boltinn

Joey Barton neitað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Joey Barton og Andy Caroll á rómantískri stundu
Joey Barton og Andy Caroll á rómantískri stundu Nordic Photos/AFP
Miðjumaður Newcastle United, Joey Barton, missir af æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna í næstu viku. Barton sem á að baki fangelsisdóm fékk ekki vegabréfsáritun hjá Bandaríkjamönnum af þeim sökum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Newcastle. Þar segir að Barton fari þess í stað í æfingaferð með varaliðinu til Hollands.

„Mér finnst leitt að geta ekki farið með liðinu í ferðina. Á sama tíma finnst mér eðlilegt að ég fái ekki öðruvísi meðferð en aðrir í svipaðri stöðu,“ sagði Barton á heimasíðu félagsins.

Þegar sótt er um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna þurfa umsækjendur að gefa upp hvort þeir séu með hreint sakavottorð. Sé það ekki hreint eru allar líkur á því að umsókn þeirra verði hafnað.

„Ég bið alla stuðningsmenn Newcastle United afsökunar. Einnig vaxandi fjölda stuðningsmanna okkar í Bandaríkjunum sem ég hlakkaði til að hitta. Ég sé ykkur síðar,“ sagði Barton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×