Enski boltinn

Scholes: Enskir landsliðsmenn hugsa aðeins um sjálfan sig

Stefán Árni Pálsson skrifar
Scholes í leik með Man. Utd. í vetur. Mynd. / AFP
Scholes í leik með Man. Utd. í vetur. Mynd. / AFP
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United,  segir í ítarlegu viðtali við enska fjölmiðla að ástæðan fyrir því að hann hafi lagt landsliðskónna á hilluna árið 2004 hafi verið að leikmenn liðsins hafi ávallt haft sína eigin hagsmuni að leiðarljósi, því hafi aldrei skapast góð liðsheild.

Scholes hætti að leika með enska landsliðinu eftir Evrópumótið 2004, en England datt út í 8-liða úrslitum keppninnar fyrir Portúgal í eftirminnilegum leik. Margir héldu því fram að leikmaðurinn hafi hætt vegna þess að Sven-Göran Eriksson, þáverandi þjálfari liðsins, hafi spilað honum út úr stöðu.

Scholes telur hugafar leikmanna vera ástæðuna fyrir slæmu gengi landsliðsins undanfarinn ár og það verði að eiga sér stað stórkostleg breyting á því.

„Ég fékk einfaldlega nóg,“ sagði Scholes við fjölmiðla í Englandi.

„Þegar maður er leikmaður í liðsíþrótt þá vill maður vera hluti af sterkri liðsheild, en þegar það eru leikmenn innan hópsins sem hugsa aðeins um eigin frama þá nær maður ekki langt“.

„Leikmenn reyndu oft á tíðum að skjóta af löngu færi í stað þess að gefa stutta sendingu á næsta leikmann og svoleiðis hugafar líkar mér illa við“.

„Maður hafði það alltaf á tilfinningunni að leikmenn vildu nota enska landsliðið til að komast að hjá stóru klúbbunum í Evrópu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×