Enski boltinn

Wenger gæti róað stuðningsmenn með kaupum á Jagielka og Mata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur staðið í ströngu í sumar við að reyna að halda sínum bestu leikmönnum, Cesc Fábregas og Samir Nasri, hjá félaginu. Nú lítur út fyrir það að Wenger ætli loksins að fara reyna að styrkja leikmannahópinn fyrir alvöru með því að kaupa tvo sterka leikmenn til félagsins.

Wenger hefur mikinn áhuga á Phil Jagielka, varnarmanni Everton og Juan Mata, spænskum vængmanni hjá Valencia. Mata gæti hjálpað við að fylla í skarð Fábregas sem er væntanlega á leiðinni til Barcelona. Jagielka og Mata gætu kostað meira en 18 milljónir punda hvor en Wenger er tilbúinn að eyða pening í þessa öflugu leikmenn samkvæmt frétt Guardian.

Wenger hefur þegar keypt framherjann Gervinho frá Lille fyrir 10,6 milljónir punda og þá fékk hann einnig bakvörðinn Carl Jenkinson frá Charlton Athletic. Stuðningsmenn Arsenal hafa beðið óþreyjufullir eftir því að stjórinn sinn styrki liðið eins og helstu keppinautarnir hafa verið að gera og þetta eru því gleðifréttir fyrir menn í Norður-London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×