Enski boltinn

Diaby missir af fyrstu leikjum Arsenal á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abou Diaby hrindir Kevin Nolan og fær rautt spjald á móti Newcastle.
Abou Diaby hrindir Kevin Nolan og fær rautt spjald á móti Newcastle. Mynd/Nordic Photos/Getty
Abou Diaby, miðjumaður Arsenal, þurfti að fara í aðgerð á ökkla og mun af þeim sökum missa af byrjuninni á tímabilinu. Diaby missir af þremur deildarleikjum og tveimur leikjum í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Abou Diaby er 25 ára franskur landsliðsmaður sem hefur verið hjá Arsenal frá árinu 2006. Hann kom til liðsins frá Auxerre og er nú með samning hjá Arsenal til 30. júní 2015.

Diaby lék 24 leiki með Arsenal í öllum keppnum á síðustu leiktíð þar af voru sextán þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Diaby skoraði 2 mörk í þessum 16 leikjum en hann var í byrjunarliðinu í þrettán þeirra.

Það var einmitt Diaby sem fékk rautt spjald á 50. mínútu í 4-4 jafnteflinu á móti Newcastle í febrúar þegar Arsenal var 4-0 yfir. Newcastle skoraði fjögur mörk gegn tíu mönnum Arsenal á síðustu 22 mínútum leiksins og tryggði sér stig.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði að Diaby yrði frá í átta til tíu vikur sem ætti að þýða að hann snúi aftur í liðið í lok ágúst. Diaby missir örugglega af deildarleikjum á móti Newcastle, Liverpool og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×