Enski boltinn

Villa-Boas vill yngja upp - segir leikmannahóp Chelsea gamlan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mikils er vænst af Chelsea undir stjórn Villa-Boas á leiktíðinni.
Mikils er vænst af Chelsea undir stjórn Villa-Boas á leiktíðinni. Nordic Photos/AFP
Knattspyrnustjóri Chelsea, Portúgalinn Andre Villas-Boas, segir að leikmannahópur félagsins sé gamall. Það sé ástæða þess að hann horfi til yngri leikmanna enda vilji hann byggja lið til framtíðar.

Chelsea eru um þessar mundir í Hong Kong þar sem liðið mætir Aston Villa í úrslitum Asíu-bikarins á morgun.

„Þeir leikmenn sem við höfum keypt og þeir sem við höfum skoðað eru ungir. Það er ekki ólíklegt að við höldum áfram á þessari braut enda er hópurinn okkar gamall. Einn sá elsti í úrvalsdeildinni,“ sagði Villa-Boas á blaðamannafundi í Hong Kong.

John Terry, Frank Lampard, Dider Drogba, Nicolas Anelka og Ashley Cole eru allt lykilmenn sem eru komnir yfir þrítugt. Töluvert hefur verið fjallað um gamlan leikmannahóp Chelsea undanfarin tvö tímabil.

Þá er Villa-Boas afar hrifinn af frammistöðu Daniel Sturridge á undirbúningstímabilinu.

Hann tilheyrir þessum hópi og hann hefur sýnt sömu gæði og hann gerði hjá Bolton, sagði Villa-Boas. Sturridge var lánaður til Bolton á síðasta tímabili og stóð sig vel.

„Hann er leikmaður fyrir framtíðina. Við munum taka ákvörðun fljótlega og spjalla við Daniel um niðurstöðu okkar. Hann hefur staðið sig frábærlega og sýnt nægilega mikla getu til þess að standa sig í þessu umhverfi og þessum leikmannahóp,“ sagði Villa-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×