Enski boltinn

Man Utd átti ekki í vandræðum með stjörnulið MLS deildarinnar

Dimitar Berbatov skorar hér mark sitt gegn úrvalsliði MLS deildarinnar.
Dimitar Berbatov skorar hér mark sitt gegn úrvalsliði MLS deildarinnar. AFP
Manchester United átti ekki í erfiðleikum með að vinna úrvalslið bandarísku MLS deildarinnar í fótbolta í gær í New Jersey.  Ensku meistararnir unnu 4-0 sigur en David Beckham var einn af leikmönnum úrvalsliðsins. Anderson og Park Ji-sung skoruðu fyrir Man Utd í fyrri hálfleik en Dimitar Berbatov og Danny Welbeck bættu við mörkum í síðari hálfleik.

Leikmenn beggja  liða gáfu mun meira í þennan leik en aðra undirbúningsleiki enda eru ekki nema um tvær vikur þar til að keppni hefst í ensku úrvalsdeildinni.

Berbatov og Wayne Rooney voru mennirnir á bak við fyrsta markið þar sem að Anderson þurfti aðeins að ýta boltanum yfir marklínuna. Beckham var nálægt því að jafna nokkrum mínútum síðar en Anders Lindegaard markvörður Man Utd varði glæsilega. Park kom Man Utd í 2-0 með góðu einstaklingsframtaki í vítateignum.

Rooney lagði upp þriðja markið þar sem hann gaf sendingu inn fyrir vörnina á Berbatov. Búlgarinn vippaði boltanum yfir markvörðinn, boltinn fór í þverslána, og Berbatov náði frákastinu, tók boltann á brjóstið og þrumaði í markið.

Beckham lék sem hægri bakvörður um tíma í síðari hálfleik og vakti það nokkra athygli.

Welbeck kom inná sem varamaður hjá Man Utd og skoraði hann fjórða markið. Hann fékk boltann út við hliðarlínuna vinstra meginn, lék þar á tvo varnarmenn og þrumaði á markið. Boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og markvörðurinn átti ekki möguleika á að verja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×