Innlent

Framlag íslendinga jafnhátt og framlag íslenska ríkisins

Sómalísk kona gefur vannærðum syni sínum mjólk í bráðabirgðaskýli í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu. Þúsundir hafa streymt til borgarinnar undanfarnar vikur, og hundruð þúsunda flúið til nágrannalanda Sómalíu.
Sómalísk kona gefur vannærðum syni sínum mjólk í bráðabirgðaskýli í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu. Þúsundir hafa streymt til borgarinnar undanfarnar vikur, og hundruð þúsunda flúið til nágrannalanda Sómalíu. Mynd/ap
Á tveimur vikum hafa hátt í sjö þúsund Íslendingar safnað átján og hálfri milljón króna fyrir vannærð og sveltandi börn í  Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Þetta jafngildir framlagi íslenska ríkisins til sama málefnis. Forsvarsmenn Unicef á Íslandi eiga ekki til orð yfir árangrinum.

Hungursneyð hefur nú verið lýst yfir í tveimur héruðum Sómalíu og ástandið versnar í Keníu og Eþíópíu vegna þurrka og uppskerubrests. Áætlað er að um 700.000 börn séu lífshættulega vannærð.   Þúsundir Sómala hafa flúið yfir til Kenía síðustu vikurnar til að leita aðstoðar.

„Það hryggir mig mjög að sjá litla drenginn minn í þessu ástandi, en ég hef þá von og trú á guð að hann muni ganga aftur svo hann geti farið eftir mjólk fyrir mig. En nú ætla ég að vera þolinmóð og bíða þess að hann nái sér.“ segir sómölsk kona sem flúði til læknastöðvar nálægt landamærum Sómalíu og Keníu til að bjarga syni sínum, sem er hættur að geta gengið vegna vannæringar.

Unicef á Íslandi brást við neyðarkallinu og efndi til söfnunar fyrir tveimur vikum. Alls hafa sjö þúsund Íslendingar safnað tæplega átján og hálfri milljón króna á þeim tíma.

„Það er svo rosalega gott og gaman að sjá þessa breiðfylkingu af stuðningsfólki. Það er í kringum tvö prósent þjóðarinnar sem hafa gefið.“

Fyrir þessa upphæð fást 300.000 skammtar af vítamínbættu jarðhnetumauki, eða yfir hálf milljón skammta af bóluefni gegn mislingum, eða um tuttugu milljónir af vatnshreinsitöflum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×