Innlent

Vilja að forseti haldi málskotsréttinum

HA skrifar
Fulltrúar stjórnlagaráðs
Fulltrúar stjórnlagaráðs Mynd GVA
Forseti Íslands heldur málskotsrétti sínum en hann á ekki að sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Þetta kemur fram í drögum að nýrri stjórnarskrá sem samþykkt voru í stjórnlagaráði í morgun. Síðasti fundur ráðsins fer fram í dag.

Fundir stóðu yfir í stjórnlagaráði í gær og búist er við öðru eins í dag.  Í gær voru samþykktir þrír kaflar sem fjölluðu um undirstöður stjórnkerfisins, mannréttindi og náttúru og Alþingi. Fjórði kaflinn sem fjallar um forseta Íslands var svo samþykktur í morgun. Forsetakaflinn er alls 10 ákvæði sem eru mun færri en í núgildandi stjórnarskrá. Í Alþingiskaflanum er kveðið á um að forsetinn haldi málskotsrétti sínum.

Heimild til synjunar á ekki við um fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni, lög um ríkisborgararétt og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

Þá kemur fram í forsetakaflanum að forseti skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Þá er kveðið á um að forseti Alþingi sé staðgengill forseta Íslands geti hann ekki gegnt störfum sínum um sinn vegna heilsufars eða öðrum ástæðum. Í núgildandi stjórnarskrá eru staðgenglar forsetans þrír.

Eftir eru fimm kaflar sem á eftir að samþykkja og þeir fjalla um  ráðherra og ríkisstjórn, dómsvald, sveitarfélög, utanríkismál og lokaákvæði. Búist er við að þeir verði samþykktir í dag á síðasta fundi stjórnlagaráðs og boðað verður til formlegs blaðamannafundur um lokaniðurstöðu ráðsins á föstudag.

Stjórnlagaráðsfulltrúar vilja svo að þjóðin eigi að taka afstöðu til nýrra draga að stjórnarskránni.  En Pétur Blöndal þingmaður sjálfstæðisflokksins segir hins vegar að það sé ekki hægt samkvæmt 79. grein núgildandi stjórnarskrár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×