Enski boltinn

Michael Owen telur að hann fái fleiri tækifæri á næstu leiktíð

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Michael Owen gengur hér út á Wembley leikvanginn ásamt Sir Alex Ferguson.
Michael Owen gengur hér út á Wembley leikvanginn ásamt Sir Alex Ferguson. AFP
Framherjinn Michael Owen, sem nýverið samdi við enska meistaraliðið Manchester United til eins árs, segir að Alex Ferguson ætli honum stórt hlutverk með liðinu á næstu leiktíð. Owen, sem er 31 árs gamall, hefur verið hjá Man Utd frá því hann kom til liðsins frá Newcastle árið 2009. Hann fékk fá tækifæri með aðalliði Man Utd á síðustu leiktíð en Owen segir að Ferguson ætli að nota hann meira á næsta tímabili.

Samkeppnin um framherjastöðurnar hjá Man Utd er gríðarleg þar sem að Wayne Rooney og Javier Hernandez voru yfirleitt fyrsti valkostur hjá Ferguson. Owen er þrátt fyrir það bjartsýnn fyrir næstu leiktíð. „Knattspyrnustjórinn ræddi við mig í lok tímabilsins og óskaði eftir því að ég yrði áfram hjá liðinu. Hann telur að ég muni leika stórt hlutverk með liðinu á næstu leiktíð, og það er ástæðan fyrir því að ég framlengdi samningnum um eitt ár,“  sagði Owen við Sky fréttastofuna. 

„Það gladdi mig að heyra þessi orð og ég var ekki lengi að hugsa mig um. Ef maður fer frá félagi eins og Manchester United þá liggur leiðin aðeins niður á við,“  sagði Owen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×