Innlent

Kynþáttahatari réðst á fyrrverandi kennara sinn í Grindavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Að sögn Víkurfrétta lýsti árásarmaðurinn sig sammála aðgerðum fjöldamorðingjans í Noregi. Þessi mynd sýnir samstöðuna í Noregi gegn kynþáttahyggju eftir árásirnar. Mynd/ AFP.
Að sögn Víkurfrétta lýsti árásarmaðurinn sig sammála aðgerðum fjöldamorðingjans í Noregi. Þessi mynd sýnir samstöðuna í Noregi gegn kynþáttahyggju eftir árásirnar. Mynd/ AFP.
Karlmaður um fertugt réðst á fyrrverandi kennara sinn, mann um sextugt, í Grindavík um helgina og hótaði honum lífláti. Víkurfréttir segja að árásin hafi átt sér stað eftir deilur á Facebook um fjöldamorðin í Noregi. Árásin var kærð til lögreglu sem lítur málið alvarlegum augum og hefur Vísir fengið staðfest að málið sé í rannsókn þar.

Víkurfréttir segja að kennarinn fyrrverandi hafi tjáð sig um árásirnar á Facebooksíðu sinni. Maður um fertugt, sem er fyrrverandi nemandi hanns, hafi einnig tjáð sig um málið þar sem hann lýsti sig sammála aðgerðum fjöldamorðingjans Anders Behring. Jafnframt hafi maðurinn viðurkennt að hann væri yfirlýstur nasisti og rasisti. Víkurfréttir segja að deilurnar hafi íþyngst á Facebook- síðunni og þróast þannig að árásarmaðurinn hafi hótað fyrrverandi kennara sínum og fjölskyldu hans.

Um klukkan fjögur aðfaranótt laugardags mætti árásarmaðurinn á heimili fyrrverandi kennara síns í Grindavík sem kom sjálfur til dyra. Að sögn Víkurfrétta veitti maðurinn svo þessum fyrrverandi kennara sínum áverka í andliti. Hann mun ekki hafa slasast alvarlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×