Enski boltinn

Evra segir að Nasri verði að koma til United til að vinna eitthvað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri.
Samir Nasri. Mynd/AP
Patrice Evra hefur sagt landa sínum Samir Nasri að koma til Manchester United ætli að hann sér að vinna einhverja titla á ferlinum. Nasri á eftir eitt ár af samningi sínum hjá Arsenal sem ætlar ekki að selja hann þótt að það gæti þýtt að hann færi frítt næsta sumar.

Samir Nasri er 24 ára gamall og hefur verið hjá Arsenal í þrjú ár. Hann spilaði frábærlega á síðasta tímabili einkum í forföllum Cesc Fabregas fyrri hluta tímabilsins. Nasri skoraði 10 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Ég grínaðist með það við hann að segja að hann sé prins í dag og ef hann ætli sér að verða kóngur þá þarf hann að koma til Man. United," sagði Evra í samtali við Sun.

„Sannleikurinn er samt bara þannig að ef hann ætlar að vinna titla þá þarf hann að koma hingað á Old Trafford. Ég er búinn að vinna tólf titla á fimm árum og ég efast um að ég hafi getað unnið svo marga titla með einhverju öðru félagi. Ég var því bara að segja honum sannleikann," sagði Patrice Evra.

Hann segir að það væri rangt hjá Nasri að fara til nágrannanna í Manchester City.

„Ef hann fer til City þá er það hans val. Ég veit samt núna að ef ég þyrfti að velja á milli Manchester United og Manchester City þá væri það ekki erfitt val," sagði Patrice Evra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×