Enski boltinn

Kenny Miller til liðs við Aron Einar hjá Cardiff

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Miller var í liði Bursaspor sem lenti í 3. sæti í tyrknesku deildinni á síðustu leiktíð.
Miller var í liði Bursaspor sem lenti í 3. sæti í tyrknesku deildinni á síðustu leiktíð. Nordic Photos/Getty Images
Skoski framherjinn Kenny Miller er á leið til Cardiff í ensku Championship-deildinni. Miller kemur frá tyrkneska félaginu Bursaspor og er kaupverðið talið vera um ein milljón pund eða sem nemur tæpum 190 milljónum íslenskra króna.

Kenny Miller er reyndur landsliðsmaður og hefur meðal annars gert okkur Íslendingum skráveifu. Hans fyrsta landsliðsmark kom Skotum á bragðið í 2-1 sigri á Íslendingum á Hampden Park í undankeppni fyrir EM 2004. Síðan þá hefur hann bætt þrettán mörkum í safnið og spilað alls 55 landsleiki.

Miller hóf feril sinn hjá Hibernian en hefur síðar leikið bæði með Celtic og Rangers í skoska boltanum.  Þá var hann í liði Derby County sem náði slakasta árangri í sögu ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2007-2008.

Aron Einar Gunnarsson gekk nýverið til liðs við Cardiff sem ætla enn eitt árið að gera atlögu að úrvalsdeildarsæti. Miller á væntanlega að mynda framherjapar með Robbie Earnshaw frá Wales. Earnshaw á að baki hið einstaka afrek að hafa skorað þrennu í fjórum efstu deildum Englands, í báðum bikarkeppnunum og með landsliði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×