Íslenski boltinn

Fram bíður eftir því að Hewson standist læknisskoðun - stendur sig vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Hewson fagnar hér marki með unglingaliði Manchester United.
Sam Hewson fagnar hér marki með unglingaliði Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Fram býst fastlega við því að félagið semji við Sam Hewson, fyrrum fyrirliða varaliðs Manchester United, sem hefur verið á reynslu hjá félaginu síðustu daga. Framarar ætla þó ekki að ganga frá neinu fyrr en læknir félagsins nær að skoða leikmanninn um helgina.

„Okkur lýst rosalega vel á hann en við ætlum að nota helgina til að ganga í skugga um líkamlegt atgervi hjá honum og hvort hann sé ekki allur í lagi. Ef það er allt klappað og klárt þá á ég fastlega von á því að við gerum samning við hann. Læknirinn okkar er erlendis en hann kemur um helgina," sagði Jón Sigurðsson og bætti við:

„Todda lýst rosalega vel á hann, hann er að virka vel á æfingum og virðist falla vel inn í hópinn. Alltaf þegar við fáum svona kappa þá viljum við tvítékka allt og hvort það sé nokkuð eitthvað gamalt í hnjánum og svoleiðis," sagði Jón hreinskilinn.

„Ef hann fer í gegnum þetta sem ég á fastlega von á, því hann lítur vel út, þá setjumst við örugglega niður við samningaborðið á mánudaginn," sagði Jón.

„Strákar sem eru búnir að spila svona lengi hjá United hljóta að geta eitthvað í fótbolta. Maður setur samt alltaf spurningamerki við þessa stráka sem eru að koma úr ensku deildinni og hvort þeir séu komnir hingað til að leika sér eða til að spila fótbolta. Það virðist þó vera að hann sé kominn til að spila fótbolta og við erum sáttir við það," sagði Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×