Íslenski boltinn

Fylkir og Afturelding geta komist í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur og Stjarnan léku til úrslita í fyrra.
Valur og Stjarnan léku til úrslita í fyrra. Mynd/Daníel
Undanúrslitaleikirnir í Valitor bikar kvenna í knattspyrnu fara fram í kvöld. Á Fylkisvelli mætast Fylkir og KR og á Varmárvelli leika Afturelding og Valur. Báðir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 en í boði er sæti í bikarúrslitaleiknum sem fer fram á Laugardalsvellinum 20. ágúst næstkomandi.

Valskonur hafa unnið bikarinn undanfarin tvö sumur og geta í kvöld komist í bikarúrslitaleikinn fjórða árið í röð. Kvennalið Vals hefur spilað átta sinnum til úrslita um bikarinn á síðasta áratug og á möguleika á því að tryggja sér sæti í bikarúrslitaleiknum í tuttugasta sinn frá upphafi.

KR-konur hafa einnig mikla reynslu af bikarúrslitaleiknum en með sigri í kvöld komast þær í sinn tíunda bikarúrslitaleik þar af þann sjötta á síðustu ellefu árum. KR (2007, 2008) eða Valur (2010, 2009, 2006) hafa unnið bikarinn undanfarin fimm sumur og það eru liðin 18 ár (1993) síðan að hvorugt liðanna komst alla leið í úrslitaleikinn.

Afturelding og Fylkir eiga hinsvegar bæði möguleika á því að komast í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn í sögunni. Afturelding hefur aldrei átt lið í bikarúrslitum karla eða kvenna. Fylkisstrákarnir hafa unnið bikarinn tvisvar sinnum en stelpurnar eru búnar að jafna sinn besta árangur í bikarnum með því að komast svona langt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×