Innlent

Fjórðungur íbúða verði til útleigu

Hvað leigufélög varðar þá gæti framlag borgarinnar falist í lóðum, fasteignum eða beinum framlögum.
Hvað leigufélög varðar þá gæti framlag borgarinnar falist í lóðum, fasteignum eða beinum framlögum.
Stefna á að því að leigu- og eða búseturéttaríbúðir verði um fjórðungur af öllu íbúðarhúsnæði í Reykjavík en hlutfall þeirra í dag er vel undir 20% af öllu íbúðarhúsnæði. Þá á að kanna kosti og galla þess að borgin taki þátt í að byggja upp með beinum hætti leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er meðal þess sem finna má í tillögu að nýrri húsnæðisstefnu Reykjavíkur til ársins 2020 og kynnt var í borgarráði í morgun.

„Meginstefnumið felast í því að tryggja öllum borgarbúum öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði hvort sem þeir þurfa stuðning vegna húsnæðismála eða ekki. Stefnt er að því að hafa fjölbreytt framboð á íbúðum í öllum hverfum borgarinnar,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í starfshópnum sátu Björk Vilhelmsdóttir, Páll Hjaltason, Geir Sveinsson og Elín Sigurðardóttir. Í tillögum að stefnumótun er kveðið á um að við skipulag íbúðahverfa skuli tryggt að fimmtungur íbúða a.m.k. miðist við þarfir tekjuminni hópa. Starfshópurinn leggur til að í nýjum hverfum miðsvæðis, s.s. í Vatnsmýri, við Mýrargötu, Hlemm og á Ártúnshöfða verði gert ráð fyrir að leiguhúsnæði verði  a.m.k. fjórðungur alls húsnæðis.  Með fjölbreyttu framboði á húsnæði hvað varðar stærð, gerð og eignarform megi betur tryggja félagslegan fjölbreytileika.

Bein framlög

Til að stækka leigumarkaðinn leggur starfshópurinn til að skoðað verði hvort styðja megi við húsnæðissamvinnufélög og félagssamtök með lóðaúthlutunum svo þau geti boðið ungu fólki og tekjulágu upp á leigu- og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum.

Jafnframt að kannaðir verði kostir þess og gallar að Reykjavíkurborg verði kjölfesta í langtíma leigufélögum til að byggja upp varanlegan og öruggan leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu. Framlag borgarinnar gæti falist í lóðum, fasteignum eða beinum framlögum.

Létta greiðslubyrði tekjulágs fólks

Í tillögum starfshópsins er kveðið á um sérstakan persónubundinn stuðning vegna húsnæðis. Reykjavíkurborg skuli hafa forystu um að samræma húsaleigubætur í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að létta greiðslubyrði tekjulágs fólks sem jafnframt á í félagslegum vanda. Stuðningur verði óháður því hver á eða rekur húsnæðið, hann miðist við aðstæður og greiðslubyrði sérhvers leigjanda.

Gert er ráð fyrir að Félagsbústaðir reki áfram húsnæði fyrir þá sem ekki geta leigt á almennum markaði, en lagt til að gerð verði úttekt á rekstrarfyrirkomulaginu og kannað hvort Félagsbústaðir geti sinnt félagslegu húsnæði á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þá er lagt til að gert verði átak í aðgengismálum þannig að sérstakir hópar, s.s.  aldraðir og öryrkjar, geti valið sér búsetu óháð aldri og líkamlegu eða andlegu ástandi.

Borgarbúar komi með ábendingar

Tillögur að nýrri húsnæðisstefnu verða sendar til umsagnar hjá hinum ýmsu hagsmunasamtökum, s.s. ASÍ, BSRB, Félagi eldri borgara og Félagsstofnun stúdenta. Jafnframt verður opnuð ábendingargátt á vef Reykjavíkurborgar husnaedisstefna@reykjavik.is og eru borgarbúar hvattir til að kynna sér stefnuna og koma með ábendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×