Innlent

Hætt við ráðningu upplýsingafulltrúa vegna sparnaðar

Mynd/Anton
Forsætisráðuneytið hætti við að ráða upplýsingafulltrúa vegna sparnaðar. Fyrr á þessu ári var staðan auglýst og sóttu 37 um hana. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvort eða hvenær starfið verður auglýst að nýju, að því er fram kemur í svari Ágústs Geirs Ágústssonar, skrifstofustjórar, við fyrirspurn Vísis.   

Í svari skrifstofustjórans segir að ákvörðun um að falla frá ráðningu í starfið að svo stöddu sé meðal annars liður í viðleitni ráðuneytisins til að ná aðhaldsmarkmiðum í rekstri á árinu. „Auk þess hafa starfsmannamál Stjórnarráðsins verið til skoðunar og umfjöllunar á undanförnum vikum m.a. í tengslum við breytingar sem miða að því að auka aðhald og sveigjanleika í starfsmannahaldi innan Stjórnarráðsins. Þótti jafnframt rétt að bíða niðurstöðu í því máli“

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG var mynduð gegndi Kristján Kristjánsson stöðu upplýsingafulltrúa í forsætisráðuenytinu. Hann fór síðar til Landsbankans og þá tók Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi ritstjóri og aðstoðarmaðuar Össurar Skarphéðinssonar, tímabundið við sem upplýsingafulltrúi. Ráðuneytið hefur verið án upplýsingafulltrúa um nokkurt skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×