Innlent

Störfum fjölgar ekki, atvinnuleysi enn mikið

Störfum hefur ekki fjölgað í hagkerfinu, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um að efnahagsbatinn sé hafinn. Óvíst er hvort fyrirtæki ráði fleiri starfsmenn á næstu misserum, jafnvel þó hagvöxtur taki kipp.

Því hefur ítrekað verið haldið á lofti að efnahagsbatinn sé hafinn hér á landi, nú síðast í skýrslu matsfyrirtækisins Moody's, sem gefin var út í gær.

Þrátt fyrir það hefur oðið bið á að störfum í hagkerfinu fjölgi, og atvinnuleysi er enn mikið, um 8,5% á öðrum fjórðungi ársins samkvæmt tölum Hagstofunnar, sem er talsvert meira en Vinnumálastofnun hefur hingað til greint frá.

Ef við skoðum tölurnar sést að á fyrsta fjórðungi ársins var starfandi fólki í hagkerfinu enn að fækka miðað við sama tímabil á fyrri árum, en störfin höfðu þá ekki verið færri svo árum skipti.

Aðeins lítilsháttar fjölgun starfa sést svo á ársfjórðungnum sem var að líða - svo lítil raunar að hún er fjarri því að vera marktæk. Störfum hefur fækkað svo mikið að tíuþúsund færri voru starfandi þá en á vormánuðum 2008.

Ein skýring á þessari töf á fjölgun starfa sem OECD hefur bent á er sú að fyrirtæki hafa hamstrað vinnuafl í kreppunni. Það merkir að fyrirtækin hafi haldið fleiri starfsmenn en þau nauðsynlega þurftu, líklega af því það er bæði dýrt og leiðinlegt að reka starfsmenn, sem merkir að þau hafa svigrúm til að auka framleiðslu sína án þess að fjölga starfsfólki.

Það merkir að jafnvel þótt hagvöxtur taki kipp er ekkert víst að störfum taki að fjölga og atvinnuleysið að minnka í nánustu framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×