Innlent

Lilja Mósesdóttir fær ekki tíma hjá lækni

Mynd/Stefán Karlsson
Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan þingflokka, fær ekki tíma hjá heimilislækni. Hún veltir fyrir sér hvort einungis skattgreiðendur eigi að njóta velferðarkerfis. Hingað til hafi hún glöð borgað skatta.

„Ég fæ ekki tíma hjá heimilislækni frekar en margir aðrir. Fram til þessa hef ég borgað skattana mína með glöðu geði og alltaf verið tilbúin að borga hærri skatta til að tryggja að allir fái læknisþjónustu og menntun við hæfi,“ segir þingmaðurinn á Facebook-síðu sinni.

Ennfremur segist Lilja velta fyrir sér hvort takmarka eigi velferðarþjónustuna við þá sem borga skattana sína. „Of margir vilja ekki borga skatta og láta okkur hin greiða fyrir velferðarþjónustuna sem þeim býðst.“

Viðbrögðin láta ekki á sér standa og er Lilju meðal annars bent á að fara í heilsugæsluna í Salahverfi í Kópavogi sem sé einkarekinn. Þá er hvatt til einkareksturs og einkavæðingar auk þess sem einhverjir taka vel í skrif Lilju og telja brýnt að breyta núverandi nálgun.

Sjálf segir Lilja að aldrei verði hægt að ná öllum skattsvikurum með boðum og bönnum. „Það sem þarf eru breytt gildi eða að fólk hætti að vinna eingöngu að eigin hagsmunum og byrji að líta á sig sem hluta af samfélagi, þar sem allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að okkur líði vel sem þjóð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×