Erlent

Hungursneyð í Sómalíu - helmingur íbúa í suðurhlutanum vannærðir

Móðir með alvarlega vannært barn sitt á spítala í Lodwar, höfuðstað Turkana-héraðs í Keníu. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir hungursneyð í suðurhluta Sómalíu en í hlutum Keníu, Eþíópíu og Djúbútsí en ástandið einnig grafalvarlegt. UNICEF hefur þungar áhyggjur af ástandinu.
Móðir með alvarlega vannært barn sitt á spítala í Lodwar, höfuðstað Turkana-héraðs í Keníu. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir hungursneyð í suðurhluta Sómalíu en í hlutum Keníu, Eþíópíu og Djúbútsí en ástandið einnig grafalvarlegt. UNICEF hefur þungar áhyggjur af ástandinu. Mynd: UNICEF / Kate Holt
Í morgun lýstu Sameinuðu þjóðirnar formlega yfir hungursneyð í tveimur héruðum Sómalíu, Bakool og í Neðri-Shabelle. Í tilkynningu frá UNICEF segir að hvergi í heiminum sé meiri vannæring en í landinu.

Þar segir að neyðin í Sómalíu hafi beint áhrif á líf 3,7 milljónir manna og helmingur þeirra sé á barnsaldri. Einn af hverjum fimm er yngri en fimm ára. „Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur þungar áhyggjur af stöðunni. Því yngri sem börnin eru því berskjaldaðari eru þau gagnvart ástandinu - og í meiri hættu á að láta lífið. Fái hjálparstofnanir ekki nauðsynlegan stuðning hefur UNICEF áhyggjur af því að hungursneyðin breiðist út yfir allan suðurhluta Sómalíu á innan við tveimur mánuðum. Líf tugþúsunda barna er undir," segir í tilkynningunni.

Sjaldgæft er að formlega sé lýst yfir hungursneyð. Það er meðal annars gert þegar 30 prósent barna á tilteknu svæði þjást af alvarlegri vannæringu og þegar tveir fullorðnir, eða fjögur börn, á hverja 10 þúsund íbúa láta lífið daglega vegna hungurs. Á svæðunum sem um ræðir í suðurhluta Sómalíu er vannæring komin yfir 50 prósent.

„Ástæða hungursneyðarinnar í Sómalíu eru mestu þurrkar á svæðinu í yfir hálfa öld og langvarandi átök og óstöðugleiki í landinu. Matvælaverð hefur auk þess hækkað stöðugt. Verð á korni hefur aldrei verið jafnhátt - sums staðar hefur það hækkað um 270%. Ástandið hefur ýtt mörgum fjölskyldum yfir brúnina: Dýr margra eru fallin og ekkert eftir til að lifa á," segir í tilkynningunni.

UNICEF á Íslandi stendur fyrir söfnun vegna neyðaraðgerða samtakanna í Sómalíu, Eþíópíu, Keníu og Dijbouti. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu UNICEF hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×