Innlent

Innbrot á pizzastað: Kannski búinn að horfa á of marga lögguþætti

Boði Logason skrifar
Ellert A. Ingimundarson leikari á og rekur pizzastaðinn Eldofninn í Grímsbæ. Á hurðinni sést hvar þjófarnir fóru inn og búið er að láta spýtu þar fyrir.
Ellert A. Ingimundarson leikari á og rekur pizzastaðinn Eldofninn í Grímsbæ. Á hurðinni sést hvar þjófarnir fóru inn og búið er að láta spýtu þar fyrir. Mynd/Samtsett-Vísir.is
„Við erum búin að vera þarna í tvö ár og maður er búinn að vera tiltölulega öruggur þarna þann tíma - svo það er svolítið skrítið að lenda í þessu," segir leikarinn Ellert A. Ingimundarson sem rekur pizzastaðinn Eldofninn í Grímsbæ.

Rúða var brotin á staðnum í nótt og þar farið inn og stolið skúffunni úr sjóðsvélinni. Ellert segir að sem betur fer hafi bara verið skiptimynt í skúffunni og þjófarnir hafi ekki komist í burtu með háa fjárhæð.

„Það er aðallega tjón á hurðinni og rúðan er brotin - síðan er skúffunni bara kippt undan tölvunni," segir Ellert en þjófavarnakerfi er á veitingastaðnum og komust þjófarnir undan áður en öryggisverðir komust á vettvang. „Þetta er í alfaraleið svo maður átti kannski ekki beint von á þessu, Bústaðavegurinn blasir þarna við og svo er öryggisgæsla í 10-11, sem er á neðri hæðinni, allan sólarhringinn."

„En þeir hafa meitt sig þegar þeir brutu rúðuna því það er blóð á hurðinni eftir þá. Ég vildi helst að lögreglumennirnir tækju eyrnapinna á blóðið en þá sögðu þeir mér að það tæki marga mánuði að fá niðurstöður úr því og við þyrftum að bera allan kostnað," segir Ellert. „Ég er kannski búinn að horfa á of marga lögguþætti, eflaust taka þeir alltaf blóðið í lögguþáttunum því kúnninn þarf að bera kostnaðinn," segir hann glettinn.

Ellert biður þá sem kunna að vita hver eða hverjir hafi verið þarna á ferð að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×