Enski boltinn

Forlan: Aguero hefði átt að fara til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Forlan og Sergio Aguero.
Diego Forlan og Sergio Aguero. Mynd/Nordic Photos/Getty
Úrúgvæmaðurinn Diego Forlan er á því að Sergio Aguero, fyrrum samherji hans hjá Atletico Madrid, hafi gert mistök með því að fara frekar til Manchester City en til Chelsea.

Manchester City keypti argentínska framherjann á 38 milljónir punda í síðustu viku en Forlan er viss um að leikstíll Chelsea myndi henta Aguero betur því Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, vill spila sóknarbolta en Roberto Mancini, fer mjög varlega inn í leiki City.

„Það kom ekki á óvart að hann færi frá Atletico en ég bjóst við að hann færi í annað félag. Leikstíll og leikmannahópur Chelsea hentar honum miklu betur," sagði Diego Forlan við The People.

„Ég er líka stuðningmaður Manchester United sem þýðir að það er ennþá erfiðara fyrir mig að sætta mig við þessa ákvörðun hans," sagði Forlan.

„Ég veit að City er núna eitt af stóru klúbbunum í Englandi og ég vil óska Sergio alls hins besta. Ég þekki það samt frá mínum tíma í Englandi að enska úrvalsdeildin er gerólík þeirri spænsku," sagði Forlan sem skoraði 10 mörk í 63 leikjum fyrir United á árunum 2001 til 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×