Formúla 1

Webber líklega áfram hjá Red Bull 2012

Mark Webber og Helmut Marko hjá Red Bull ræða málin.
Mark Webber og Helmut Marko hjá Red Bull ræða málin. AP mynd: Martin Meissner
Flest bendir til þess að Mark Webber verði áfram hjá Red Bull Formúlu 1 liðinu á næsta keppnistímabili, en hann er í viðræðum við Christian Horner og samstarfsmenn um áframhaldandi veru hjá liðinu. Samningur hans við liðið rennur út í lok ársins, en Sebastian Vettel er með langtímasamning við Red Bull.



„Við erum í viðræðum við Mark um næsta ár og ég geri ráð fyrir að hann verði hérna. Hann er vinsæll innan liðsins og gæti vel átt eftir 2, 3 eða 4 ár. Það er undir honum komið. Hann er mjög samkeppnisfær og hungraður", sagði Horner í frétt á autosport.com í dag.



Keppnislið verða í sumarfríi næstu vikurnar, en keppt verður næst á Spa brautinni í Belgíu 26. ágúst.



„Það er samkomulag okkar á milli um það að ræða málin í lok sumars. Við erum í góðum samskiptum okkar á milli og samtöl við hann eru hrein og bein. Báðir aðilar hafa áhuga á áframhaldandi samstarfi og við munum setjast niður á næstu vikum á meðan fríinu stendur og skoða næsta ár", sagði Horner.

Webber er í öðru sæti í stigakeppni ökumanna á eftir Vettel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×