Innlent

Margir gagnrýna Seðlabankann fyrir hækkun stýrivaxta

Fjöldi hagsmunaaðila hefur í dag gagnrýnt Seðlabankann harðlega fyrir að hafa hækkað stýrivexti um fjórðung úr prósenti. Seðlabankastjóri segir hægt að veita verðbólgu mótspyrnu án þess að ógna efnahagsbata hagkerfisins.

Virkir stýrivextir Seðlabankans eru meðalvextir á mismunandi innlánum fjármálastofnana hjá bankanum, en þeir standa nú í tæplega 3,9 prósentum eftir hækkun upp á fjórðung úr prósentustigi í dag.

Fjöldi hagsmunaaðila hefur gagnrýnt vaxtahækkunina harðlega í dag, og kallað hana óskiljanlega og slæm tíðindi fyrir hagkerfið. Þeirra á meðal eru Alþýðusambandið, Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð og Samtök Atvinnulífsins, sem segja að þó svo hagvaxtarhorfur séu betri í ár en í fyrri spám, hafi spáin fyrir næsta ár versnað mikið.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, segir ákvörðunina koma til vegna versnandi verðbólguhorfa, en þjóðarbúskapurinn virðist jafnframt vera kröftugri en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Hann telur því hægt að veita verðbólgunni mótspyrnu án þess að áhyggjur hagsmunaaðila af ógn vaxtahækkunarinnar við efnahagsbatann raungerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×