Innlent

Troð­fullt á bíla­stæði við þjóð­veginn og löng bið fram undan

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Örtröð er af bílum á bílastæðinu við Laufskálavörðu.
Örtröð er af bílum á bílastæðinu við Laufskálavörðu. Gulli Helga

Fjöldinn allur af ferðamönnum bíður nú við Laufskálavörðu, austan megin við Skálm, eftir að þjóðvegurinn opni. Fjölmiðlamaðurinn Gunnlaugur Helgason, eða Gulli Helga, er á svæðinu og spáir enn lengri bið. 

Á vef Vegagerðarinnar segir að þjóðvegurinn opni aftur við Skálm eftir klukkan átta, en honum hefur verið lokað í um einn og hálfan sólarhring vegna jökulhlaups úr Mýrdalsjökli.

Uppfært 20:13: fram kemur á vef Vegagerðarinnar að unnið sé að lokafrágangi á hringveginum og það geti tekið um klukkutíma. Biðin virðist því ætla að lengjast.

Gunnlaugur segir að troðfullt sé á bílastæðinu við Laufskálavörðu, en lokunarpósturinn er skammt frá. 

„Hér er haugur af bílum. Planið er alveg fullt og verið er að raða bílunum eins og hægt er,“ segir hann í samtali við fréttastofu. 

Hann spáir því að eftir að þjóðvegurinn opni á ný muni taka langan tíma að koma öllum bílunum af planinu og á veginn. Þá komi löng bílaröð til með að myndast. „Svo mun þetta örugglega ganga löturhægt yfir skemmda veginn,“ segir Gunnlaugur. Hann hrósar þó viðbragðsaðilum fyrir það sem virðist vel skipulagt starf. 

Viðbragðsaðilar eru á staðnum til að beina vegfarendum á bílastæðið.Gulli Helga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×