Viðskipti erlent

Milljónamæringur án þess að vita af því

Einhversstaðar í heiminum, sennilegast í Englandi, er eigandi Faberge eggs sem sennilega veit ekki að eggið er nær 400 milljóna króna virði.

Eggið var gjöf keisarans Alexander III til konu sinnar Mariu Feodorovnu árið 1885. Eftir byltinguna í Rússlandi 1917 var lagt hald á eggið og þess er getið í skjölum um þjóðargersemar Rússlands árið 1922 en síðan hvarf eggið.

Þegar bandarískur safnari fór nýlega yfir gamla sölubæklinga sá hann mynd af egginu í einum slíkum frá árinu 1964. Það var þá til sölu á um 160 þúsund kr.

Í frétt Jyllands Posten um málið er talið líklegast að núverandi eigandi eggsins sé búsettur í Englandi því það voru einkum Englendingar sem keyptu fornmuni eins og eggið á þeim tíma sem sölubæklingurinn var gefinn út.

Faberge eggin voru smíðuð af samnefndum gullsmið við rússnesku hirðina á seinni hluta nítjándu aldar og nokkuð fram á þá tuttugustu. Árið 2007 var eitt slíkt selt á uppboði í London á tæpa 2 milljarða kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×