Erlent

Kýrin Yvonne vekur mikla athygli í Þýskalandi

Þýska þjóðin fylgist nú spennt með tilraunum dýraverndunarsinna til að bjarga kú úr skóglendi Bæjaralands en þar hefur kýrin dvalið síðan hún flúði af bóndabýli sínu í vor.

Kýrin sem heitir Yvonne flúði frá býlinu sem staðsett er nálægt bænum Muhldorf í maí. Hún hefur síðan haldið til í skóglendi og þrátt fyrir umfangsmiklar tilraunir hefur ekki tekist að ná henni aftur. Yvonne er mjög stygg, liggur í felum yfir daginn og er aðeins á ferðinni að næturlagi.

Ýmislegt hefur verið reynt að lokka Yvonne úr skóglendinu. Meðal annars var önnur kýr, Waltraud að nafni, flutt að skóglendinu en Waltraud er sögð besta vinkona Yvonne í fjósinu. Það dugði ekki. Nú á að flytja nautið Ernst á svæðið í þeirri von að Yvonne falli fyrir kynþokka Ernst, að því er segir í frétt á BBC um málið.

Lögreglan hefur gefið opið skotleyfi á Yvonne fyrir veiðimenn þar sem talið er að hún geti ógnað umferð um skóglendið. Blaðið Bild heitir hinsvegar 10 þúsund evra verðlaunum til handa þeim sem tekst að bjarga Yvonne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×