Hakamada var ákærður fyrir og fundinn sekur um að hafa myrt yfirmann sinn, eiginkonu hans og tvö börn þeirra á táningsaldri. Hann var ekki viðstaddur þegar hann var loksins sýknaður, þar sem hann þjáist nú af andlegum veikindum sökum þess að vera vistaður á dauðadeild í meira en hálfa öld.
Lík fórnarlambanna fundust þegar tilkynnt var um eldsvoða á heimili þeirra árið 1966. Öll höfðu verið stungin til bana. Hakamada, fyrrverandi boxari sem starfaði í miso-verksmiðju undir stjórn mannsins, var handtekinn.
Yfirvöld sökuðu Hakamada um að hafa myrt fjölskylduna, kveikt í heimili þeirra og stolið um það bil 200 þúsund jenum í reiðufé. Hakamada sagðist saklaus en játaði síðar eftir barsmíðar og yfirheyrslur sem stundum vöruðu í allt að tólf tíma.
Föt sem fundust í tanki af miso um það bil ári eftir morðin urðu til þess að Hakamadu var fundinn sekur. Dómarinn Hiroaki Murayama komst hins vegar að þeirri niðurstöðu árið 2014 að fötin hefðu ekki tilheyrt Hakamada og að yfirvöld hefðu líklega komið sönnunargögnunum fyrir.
Hakamada var látinn laus 2014 og hefur síðan verið í umsjá systur sinnar, sem er 91 árs.
Frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar hafa aðeins fimm einstaklingar á dauðadeild í Japan fengið mál sín tekin upp. Japan er eitt fárra ríkja þar sem dauðadómar eru enn við lýði og þá búa dæmdir við þann veruleika að fá aðeins nokkurra klukkustunda viðvörun áður en þeir eru hengdir.