Viðskipti erlent

Verulegur ótti enn til staðar á mörkuðum

Hækkanir á hlutabréfamörkuðum gefa alls ekki til kynna að allt sé fallið í ljúfa löð meðal fjárfesta að mati Jan Störup Nielsen greinenda hjá Nordea. Nielsen bendir á þróunina á gjaldeyrismörkuðum sem sýnir að óttinn sé enn til staðar meðal fjárfesta og það í verulegum mæli.

Þar á Nielsen við gífurlegar hækkanir á gengi svissneska frankans. Um tíma í gærdag var gengi frankans á pari við evruna sem ekki hefur gerst áður í sögunni og gengið hefur ekki verið sterkara gagnvart dollaranum undanfarin 30 ár. Svissneskur franki er talinn örugg höfn í ölduróti fjármálamarkaða, svipað og gullið.

Seðlabanki Sviss hefur ítrekað reynt að grípa inn í þessa þróun með því lækka stýrivexti sína og dæla frönkum í milljarða vís inn á markaðinn í þeirri viðleitni að lækka gengi hans. Sérfræðingar segja að það hafi ekki dugað til og að bankinn verði að grípa til sterkari aðgerða. Í morgun tilkynnti bankinn að slíkar aðgerðir væru í farvatninu, að því er segir í frétt í Jyllands Posten um málið.

Hið ofursterka gengi frankans er orðið að vandamáli fyrir Svisslendinga, einkum útflutningsfyrirtæki landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×