Viðskipti erlent

Apple sækir að Exxon

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple varð í gær um tíma verðmætasta fyrirtæki heims þegar það fór fram úr Exxon Mobil.

Exxon tók þó við sér undir lok dags og endurheimti titilinn.

Við lokun markaða í gær var Apple metið á 346,74 milljarða Bandaríkjadala en Exxon á 352,9 milljarða dala.

Þetta gerðist þrátt fyrir að árlegar tekjur Exxon séu fjórum sinnum hærri en tekjur Apple og bendir því til þess að markaðir telji vaxtarmöguleika Apple mun meiri. Þá er búist við gífurlegri sölu á iPhone-síma Apple á næstu misserum.
Fyrirtækin skiptust á um að halda forystunni eftir því sem á gærdaginn leið en óstöðugleiki hefur verið á hlutabréfamörkuðum.

Áhlaup Apple í gær batt enda á fimm ára veru Exxon Mobil sem verðmætasta fyrirtækis heims. Apple bætist því í lítinn hóp fyrirtækja sem það hafa gert. Meðal þeirra eru General Electric, General Motors, IBM, Microsoft og AT&T.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×