Innlent

Black Pistons í héraðsdómi: Gerir lítið úr sínum hlut í árásinni

Black Pistons meðlimirnir ganga inn í réttarsalinn í morgun.
Black Pistons meðlimirnir ganga inn í réttarsalinn í morgun. MYND/GVA
Foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons, neitaði fyrir dómara í morgun að hafa tekið þátt í líkamsárás á rúmlega tvítugan karlmann í maí síðastliðnum.

Maðurinn, Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, er ákærður ásamt öðrum manni, Davíði Frey Rúnarssyni, fyrir að hafa í maí síðastliðnum svipt rúmlega tvítugan karlmann frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili annars þeirra og í geymsluhúsnæði, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti.

Davíð Freyr játaði að hafa kýlt og sparkað í manninn en sagði Ríkharð ekki hafa komið nálægt árásinni. Ríkharð neitaði að hafa tekið þátt í líkamsárásinni en hann hafi hugsanlega stuggað við honum. Báðir neituðu þeir að hafa svipt manninn frelsi sínu.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni sagði fyrir dómara ekki hafa búist við að komast lífs af á meðan árásinni stóð.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin standi yfir fram eftir degi og á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×