Innlent

Ætlar að tilkynna ákvörðun sína á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Steingrímsson ætlar að greina frá því á morgun hvað hann hyggst fyrir.
Guðmundur Steingrímsson ætlar að greina frá því á morgun hvað hann hyggst fyrir.
„Ég er búinn að ákveða að segja á morgun hvað ég hafði hugsað mér að gera og vil aðeins hafa stjórn á þeirri atburðarrás," segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við Vísi. Hann vill því hvorki játa því né neita hvort hann muni stofna nýjan stjórnmálaflokk eins og greint hefur verið frá í dag.

Fréttavefur DV sagðist í dag hafa heimildir fyrir því að Guðmundur myndi tilkynna um stofnun nýs flokks á morgun. Heimildir Vísis herma það sama.

„Ég sagði fyrr í sumar þegar Ásmundur kom til liðs við Framsóknarflokkinn að ég ætlaði að taka mér góðan tíma í að hugsa hvað maður ætlaði að gera pólitískt, því að mér fyndist eins og flokkurinn væri farinn eitthvert sem ég ætti ekki samleið með. Og ég er að nálgast niðurstöðu í því," segir Guðmundur í samtali við Vísi.

Guðmundur segist hafa rætt málin við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins í gegnum tíðina. Hann sagði samt ekki hvort hann hefði talað við hann nýlega um málin. „En það á öllum að vera ljóst að ég hef verið á annarri línu," segir Guðmundur.

Þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður þingflokksins, og Siv Friðleifsdóttir þingmaður voru spurð út í málið í dag sögðust þau öll koma af fjöllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×