Íslenski boltinn

Þorlákur: Vissum alveg að við værum ekkert að fara að klúðra þessu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
„Mér líður mjög vel," sagði Þorlákur Árnason, þjálfari Stjörnunnar eftir að stelpurnar hans höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld. Þetta er fyrsti stóri titill félagsins í meistaraflokki í fótbolta og hann kom á fyrsta ári Þorláks með liðið.

„Við spiluðum við lið með mikið sjálfstraust og með markmann í banastuði. Þetta var erfið fæðing því við nýttum færin illa í kvöld. Seinni hálfleikurinn var góður og við héldum áfram að fá fullt, fullt af færum," sagði Þorlákur en Stjarnan skoraði fyrsta markið sitt á 48 mínútu. Síðustu tvö mörkin komu síðan ekki fyrr en í blálokin.

„Þegar annað markið kom þá var þetta bara búið. Mér fannst við spila vel í seinni hálfleik og létum ekki stressið hafa áhrif á okkur. Ég var gríðarlega ánægður með það," sagði Þorlákur sem hrósaði liði Aftureldingar.

„Þær voru vel skipulagðar en það var ekki mikið í gangi hjá þeim fram á við. Þær eru búnar að gera gríðarlega vel í sumar og ég er mjög hrifinn af John þjálfaranum hjá Aftureldingu sem er búinn að gera frábæra hluti með þetta lið," sagði Þorlákur.

„Það skiptir máli fyrir okkur að klára þetta í dag en við vissum alveg að við værum ekkert að fara að klúðra þessu," sagði Þorlákur en Stjarnan þurfti einn sigur út úr síðustu þremur leikjum sínum.

„Hugarfar leikmanna er fyrst og fremst að skila þessu en markmiðssetningin tókst því við stefndum á þetta. Það er samt hugarfar leikmanna sem gerir það að verkum að við unnum þennan titil," sagði Þorlákur en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×