Lífið

Steindi fær geðveika hugmynd

Það kemur enginn að tómum kofanum þegar Steindi Jr. er annars vegar. Þorsteinn Bachmann fær hann hér til að gera atriði fyrir Fiðrildaviku UN Women og Steindi fer strax á flug.

UN Women á Íslandi stendur fyrir Fiðrildaviku 12. til 18. september með það að markmiði að hvetja Íslendinga til að standa með "systrum" sínum víða um heim. Þema fjáröflunarvikunnar er fiðrildið; þar sem ætlunin er að hafa fiðrildaáhrif héðan frá Íslandi því eitthvað lítið, eins og vængjasláttur örsmárra fiðrilda, getur haft gríðarleg áhrif á veðurkerfi hinum megin á hnettinum.

Markmið Fiðrildavikunnar er að hvetja landsmenn til þess að skrá sig sem styrktaraðila í Systralag UN Women. Framlög til Systralagsins renna til UN Women sem er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir bættum hag kvenna í fátækustu löndum heims.

Fjölmargir leggja hönd á plóg þessa vikuna, þeirra á meðal Steindi, Þorsteinn og Ágúst Bent sem gáfu vinnu sína við þetta stórskemmtilega atriði.

Nánari upplýsingar um UN Women má finna á unwomen.is og á Facebook-síðu samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.