Fótbolti

Villas-Boas: Meistaradeildin erfiðari en HM í fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre-Villas Boas, stjóri Chelsea.
Andre-Villas Boas, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri Chelsea, fær í kvöld að spreyta sig á Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn en hann fagnaði á síðasta tímabili sigri í Evrópudeild UEFA, þá sem stjóri Porto.

„Meistaradeildin er erfiðasta keppnin,“ sagði Villas-Boas við enska fjölmiðla. „Eins og í öðrum alþjóðlegum keppnum safnast þarna saman mörg góð lið og keppa um einn titil.“

„Fjöldi þeirra góðu liða sem taka þátt í ár er jafnvel enn meira áberandi en áður. Það eru svo mörg lið með breiða og sterka leikmannahópa - eins og Manchester City. Inter mun líka reyna að ná bikarnum aftur eftir að þeir töpuðu honum í fyrra og Real Madrid er svo með ótrúlegan hóp. Það eru svö mörg lið sem geta farið alla leið.“

„Ég hef ekki farið áður á HM í knattspyrnu. Ég er líka frekar óreyndur í þessari keppni. En það sem miklu máli skiptir á móti eins og HM er vilji leikmanna til að standa uppi sem sigurvegari. Það er ekkert annað sem kemst að og þeir fá að einbeita sér að keppninni algerlega.“

„En Meistaradeildin er erfiðari að því leyti að hún er keppni sem blandast inn í aðrar keppnir. Flest þessara liða eru líka að keppa um bikara í sínu heimalandi. Meistaradeildin er því afar erfið og krefst þess að bæði leikmenn og þjálfarar séu rétt innstilltir fyrir hvern einasta leik.“

Chelsea mætir í kvöld þýska liðinu Bayer Leverkusen á heimavelli en allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 18.45.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×