Viðskipti erlent

Papandreu segir Grikki standa við sitt

Mynd/AP
Gríski forsætisráðherrann staðhæfir að Grikkir geti staðið við allar skuldbindingar sínar. Georg Papandreu sagði þetta á fundi í Þýskalandi í gær en þar ræddi hann við forkólfa þýsks viðskiptalífs. Síðar um daginn fundaði hann með Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Um leið og Papandreu lét þessi orð falla í Þýskalandi bjuggu margir Grikkir sig undir verkföll til þess að mótmæla skattahækkunum og niðurskurði. Nokkrar hækkanir urðu á mörkuðum heimsins í gær og svo virðist sem aukin trú sé að vakna um að hægt verði að bjarga grísku efnahagslífi.

Umdeildar hækkanir á fasteignaskatti voru samþykktar í gríska þinginu í gær en rúmlega 2000 almennir borgarar mótmæltu á torginu fyrir utan þinghúsið þegar kosið var um þær í gærkvöldi. Merkel segir að Þjóðverjir muni hjálpa Grikkjum, en aðeins ef þeir standa sjálfir sína plikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×