Innlent

Fangaflutningar til Litháen 20 prósent af kostnaði ríkissjóðs

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Fangaflutningar til Litháen eru rúm tuttugu prósent af kostnaði ríkissjóðs við fangaflutninga til annarra landa síðastliðin tíu ár. Fangar voru fluttir til tuttugu og átta landa á kostnað ríkissjóðs á þessum tíma.

Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi um kostnað ríkissjóðs við fangaflutninga kemur fram að heildarkostnaðurinn síðastliðin tíu ár við fangaflutninga til annarra landa eru tæpar sextíu og þrjár milljónir króna. Innanlands var kostnaðurinn hins vegar tæðar þrjú hundruð og tuttugu milljónir.

Í svari ráðherra er kostnaðurinn jafnframt sundurliðaður eftir flutningsleiðum. Þ.e. hvert fangarnir voru fluttir. Á listanum eru tuttugu og átta lönd en kostnaður við fangaflutninga til flestra þeirra er um það ein milljón eða minna.

Hins vegar kostaði það ríkissjóð tæpar fjórar komma sjö milljónir króna að flytja fanga til Rúmeníu, rúma sjö og hálfa til Póllands og rúmar þrettán milljónir til Litháen. Þannig eru rúm tuttugu prósent af kostnaði ríkissjóðs við fangaflutninga síðastliðin tíu ár til annarra landa, flutningar til Litháen.

Í svari ráðherra segir þó að athuga beri að löndin sem flutt er til þurfa ekki að endurspegla þjóðerni þeirra sem hafa setið í fangelsum landsins. T.d. hafi kostnaður vegna flutnings til Ítalíu verið hátt á aðra milljón króna en enginn Ítali hefur verið vistaður í fangelsum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×