Lífið

Forstjóri Iceland Express í rokkhljómsveit

Á myndinni eru (talið frá vinstri): Birgir Jónsson trommuleikari, Silli Geirdal bassaleikari, Stefán Jakobsson söngvari og Ingó Geirdal gítarleikari.
Á myndinni eru (talið frá vinstri): Birgir Jónsson trommuleikari, Silli Geirdal bassaleikari, Stefán Jakobsson söngvari og Ingó Geirdal gítarleikari.
Rokksveitin DIMMA heldur tónleika á Gauk á Stöng á fimmtudaginn næstkomandi en til stendur að hljóðrita tónleika hljómsveitarinnar og gefa út á stuttskífu (EP) ásamt nýju efni í október næstkomandi.

Á tónleikunum á fimmtudag koma einnig fram hljómsveitirnar Black Earth og Rekkverk.

„Stuttskífan verður gefin út í takmörkuðu upplagi og er hugsuð til að kynna nýja liðsmenn sveitarinnar; þá Birgi Jónsson (trommuleikara) og Stefán Jakobsson (söngvara) sem gengu til liðs við bræðurna Silla og Ingó Geirdal (bassa og gítarleikara) fyrr á árinu,“ segir í tilkynningu frá sveitinni en Birgir var í gær ráðinn forstjóri hjá flugfélaginu Iceland Express.

Mikið stendur til hjá DIMMU um þessar mundir því auk þess að vinna nú að upptöku á sinni þriðju breiðskífu sem mun koma út með vorinu er sveitin iðin við tónleikahald. Í október mun DIMMA leika á Iceland Airwaves auk þess sem sveitin fer í tónleikaferð til Rússlands og leikur meðal annars á tónlistarhátíðinni Rock Immune í St. Péturborg.

Sveitin er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu en DIMMA hefur áður gefið út plöturnar Dimma (2005) og Stigmata (2008).

Tónleikarnir á Gauknum hefjast með fyrra fallinu en til að einfalda hljóðupptökuna mun DIMMA stíga fyrst á svið, þ.e. án upphitunar sveitar kl 22:00 og munu svo Black Earth og Rekkverk koma í kjölfarið.

Húsið opnar kl 21:00 og er aðgangseyrir aðeins kr 1000 en DIMMA verður einnig með ýmsan varning til sölu, þ.á.m nýja boli og diska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.