Viðskipti erlent

Evruríkin fresta ákvörðun um frekari lán til Grikkja

Georg Papandreu forsætisráðherra Grikkja.
Georg Papandreu forsætisráðherra Grikkja. Mynd/AP
Fjármálaráðherrar Evrusvæðanna hafa ákveðið að fresta ákvörðun sinni um hvort Grikkir eigi að fá frekari fjárhagsaðstoð frá hópnum. Þetta var ákveðið í gærkvöldi eftir að Grikkir höfðu lýst því yfir að þeir myndu ekki ná takmörkum sem þeir höfðu sett sér við að draga úr fjárlagahalla ríkisins.

Þessi tilkynning olli mikilli lækkun á hlutabréfum um allan heim í gær og því ákvað Evruríkjahópurinn að bíða með ákvörðunina en til stóð að funda um málið um miðjan mánuðinn. Jean-Claude Juncker sem fer fyrir hópnum lýsti því þó yfir að Grikkir myndu ekki verða gjaldþrota, en óttin um það fer nú vaxandi með hverjum deginum.

Juncker þvertók einnig fyrir að sum ríki innan hópsins, þar á meðal Þjóðverjar, hafi á síðustu vikum komist á þá skoðun að gjaldþrot Grikklands væri nú það rétta í stöðunni.

Óttinn um enn frekari vandræði Grikkja kom þó bersýnilega í ljós við opnun markaða í Evrópu í morgun þar sem lækkun varð á helstu vísitölum. FTSE vísitalan hefur lækkað um 1,60 prósent, DAX um rúm tvö prósent og CAC í París hefur farið niður um 2,23 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×