Innlent

Alþingi þarf að móta afstöðu fyrir forsetakosningarnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti Alþingi í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti Alþingi í dag.
Alþingi þarf að móta skýra afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs þótt breytingar á sjálfri stjórnarskránni hljóti ekki endanlegt gildi fyrr en að loknum næstu þingkosningum. Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ræðu sinni við setningu Alþingis í dag.

Ólafur Ragnar sagði að tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskránni fælu í sér verulega aukið vald forseta Íslands. Benti hann meðal annars á að tillögurnar feli í sér aukið vald forseta Íslands við myndun ríkisstjórna. Þá þyrfti forseti að samþykkja val á dómurum og ríkissaksóknara.

„Því er áríðandi að nýhafið þing móti skýra afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs þótt breytingar á sjálfri stjórnarskránni hljóti ekki endanlegt gildi fyrr en að loknum næstu þingkosningum," sagði Ólafur Ragnar Grímsson. Hann sagði að ef Alþingi tækist ekki að ná niðurstöðu í vetur yrði þjóðin sett í afar erfiða stöðu vegna forsetakosninganna næsta vor. „Henni verður þá gert að kjósa forseta Íslands í fullkominni óvissu um stöðu hans í stjórnskipun landsins," sagði Ólafur Ragnar.

„Það er einlæg ósk mín til hins nýja þings að þessi vandi verði farsællega leystur og þingmenn láti ekki afstöðu til verka núverandi forseta tefja för. Sú forsetatíð mun taka enda eins og annað. Í húfi er hins vegar framtíðarskipan lýðveldisins," sagði forsetinn að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×