Enski boltinn

Liverpool vill Evra í bann séu ásakanir hans falskar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra og Luis Suárez eigast hér við í leiknum.
Patrice Evra og Luis Suárez eigast hér við í leiknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool ætlar að standa við bakið á Úrúgvæmanninum Luis Suárez sem hefur hafnað algjörlega þeim fréttum að hann hafi kallað Patrice Evra, fyrirliða Manchester United, niggara í leik liðanna á laugardaginn.

Luis Suárez var mjög óhress með að vera sakaður um kynþáttarníð gagnvart bakverði United en þeir áttustu nokkrum sinnum við í leiknum á laugardaginn sem endaði með 1-1 jafntefli.

Patrice Evra fór ásamt Sir Alex Ferguson til dómarans Andre Marriner eftir leik og kvartaði undan framkomu Suárez auk þess sem franski bakvörðurinn talaði um málið í viðtali við Canal Plus.

Evra sagði í viðtalinu við frönsku sjónvarpsstöðina að menn gætu bara horft á sjónvarpsupptökur frá leiknum og lesið af vörum Suárez því hann hafði sagt "ljóta" orðið í það minnsta tíu sinnum.

Forráðamenn Liverpool hafa snúið vörn í sókn og heimta nú að Patrice Evra verði dæmdur í bann finnist enginn fótur fyrir þessum ásökunum hans.

Evra var reyndar illa upplagður þennan dag því hann var farinn að deila við dómarann áður en leikurinn hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×